Ný vefsíða jarðvanga á Íslandi

Ný vefsíða samstarfsvettvangs íslenskra jarðvanga, geopark.is, opnaði nýlega en þar birtast nýjustu fréttir af samstarfi jarðvanganna og fleira áhugavert. Lengi hefur vantað vettvang á vefnum fyrir Íslandsnefnd jarðvanga og er þessari vefsíðu ætlað að vekja athygli á starfi jarðvanga á Íslandi. Á Íslandi eru tveir starfandi jarðvangar, annars vegar Reykjanes jarðvangur og hins vegar Katla jarðvangur. Gott samstarf hefur verið á milli jarðvanganna og stefnt að því að efla það enn frekar. Jarðvangarnir tveir leggja sig fram við að gera sig gildandi á meðal UNESCO skráninga á Íslandi. Á UNESCO deginum 3. september s.l. sem er fundur UNESCO verkefna á Íslandi kynntu jarðvangarnir þá vinnu sem hefur farið fram þar s.l. tvö ár og vakti það mikla athygli og hrifningu gesta á fundinum. Hér má lesa nánar um UNESCO daginn geopark.is/unesco_dagur .

Þarna er einnig að finna ýmsan fróðleik sem og skilgreiningar sem tengjast UNESCO hnattrænum jarðvöngum (e. UNESCO Global Geoparks) s.s. fréttabréf evrópskra jarðvanga, bæklinga ofl.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið styrkti Háskólafélag Suðurlands til að koma síðunni upp.