Þann 25. september er fánadagur heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna haldinn hátíðlegur. Þá flagga hundruð fyrirtækja, stofnana, skóla og sveitarfélaga um allan heim fánum heimsmarkmiðanna til að minna á mikilvægi sjálfbærrar þróunar og sýna stuðning í verki.
Reykjanes UNESCO Global Geopark tekur virkan þátt í deginum og tengir hann sérstaklega við samstarfsverkefni með Suðurnesjavettvangi, sem hefur það markmið að gera alla skóla á Reykjanesi að UNESCO-skólum (ASPnet). Með því verða skólarnir hluti af alþjóðlegu neti sem vinnur að menntun fyrir sjálfbæra framtíð og tengir kennslu og skólastarf beint við heimsmarkmiðin.
En fánadagurinn markar jafnframt upphaf sjálfbærniviku í Reykjanes Geopark, sem stendur yfir dagana 25. september – 1. október og fær þannig mjög sýnilega byrjun, því flestir skólar og mörg fyrirtæki innan Reykjanes jarðvangs eiga slíkan fána og munu draga hann að húni þennan dag. Markmiðið er að virkja íbúa, fyrirtæki, skóla og sveitarfélög til að taka þátt í að móta sjálfbæra framtíð fyrir Reykjanes. Með fræðslu og samvinnu skapast vettvangur þar sem hugmyndir verða að aðgerðum – í anda heimsmarkmiðanna og í nánu samstarfi við skólana okkar, sem eru framtíðarsmiðir svæðisins.
Með því að sameina fánadag heimsmarkmiðanna og sjálfbærniviku viljum við undirstrika að heimsmarkmiðin eru ekki aðeins alþjóðleg markmið – þau eru leiðarljós í okkar daglega starfi og framtíðarsýn fyrir Reykjanes.
Við hvetjum alla til að taka þátt, fylgjast með og deila myndefni undir merkjum:
#togetherfortheSDGs
???? Nánar um sjálfbærniviku Reykjanes Geopark: www.sjalfbaernivika.is
???? Nánar um fánadag heimsmarkmiðanna: www.un.is/fanadagurinn