UNESCO, Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna viðurkenndi Reykjanes sem UNESCO Global Geopark árið 2015. Það er ekki þar með sagt að Reykjanes jarðvangur geti flaggað þeim fána að vera UNESCO Global Geopark um ókomna tíð án þess að vinna fyrir því. Jarðvangar um allan heim fara í gegnum einskonar úttekt á fjögurra ára fresti. Þar eru framfarir og störf jarðvangsins skoðuð og einnig hverju þarf að vinna betur að o.s.frv. Eftir úttektina liggur fyrir niðurstaða sem getur farið á þrjá vegu, rauða-, gula-, og græna kortið. Fái jarðvangur rauða kortið missir hann titilinn UNESCO Global Geopark, gula kortið gefur jarðvangnum aðeins tvö ár til að bregðast hratt við tillögum til umbóta. Græna kortið er svo besta mögulega útkoma þar sem jarðvangnum eru gefin fjögur ár til að vinna að tillögum til umbóta. Það er skemmst frá því að segja að Reykjanes Jarðvangur fékk græna kortið í sinni fyrstu úttekt. Það er óhætt að segja að það góða starf sem hefur farið fram á Reykjanesi undanfarin ár hefur skilað þessum frábæra árangri. Stofnaðilar og stjórn Jarðvangsins á Reykjanesi eru því afar stoltir af verkefninu og ætla að vinna áfram að því að styrkja stoðir jarðvangsins.