Um okkur

Lífríki

Lífríki

Á Reykjanesskaga ber mest á fuglum, refum og selum. Mófuglar eru algengir og víða má finna fugla í sjávarbjörgum. Á flatlendi verpa mávar og kríur. Meðal annarra varpfugla eru steindeplar og lóur, og ýmsir sund- og vaðfuglar en meðal ránfugla má sjá bæði hrafna, fálka, smyrla og kjóa.

Landbúnaður var mikilvægur atvinnuvegur á Reykjanesi. Þá voru þar hjarðir húsdýra, einkum sauðfé, en þær eru nú horfnar.

Veðurfarið einkennist af töluvert mikilli úrkomu, vindasömum dögum og háum meðalárshita. Hröð upphleðsla jarðlaga og veðurfar hafa leitt til ólíkra vistkerfa, frá afar fábreyttum og harðgerðum gróðri í sandi og hrauni til heiða- og kjarrgróðurs á skjólsælum stöðum.

Jarðfræði og landslag

Reykjanesskaginn er ungur hluti Íslands, um 2.000 ferkm að flatarmáli. Hann er þurrlendishluti Mið- Atlantshafshryggjarnins, mjög eldvirkur eins og neðansjávarhlutinn. Út frá honum rekur tvær jarðskorpuplötur (-fleka) í gagnstæðar áttir, að meðaltali 2,0-2,5 cm á ári.
Á skaganum er að finna mörg móbergsfjöll og -fell frá jökulskeiðum á síðari hluta kvarteru ísaldarinnar, og enn fremur hraun og eldstöðvar af hlýskeiðum, einkum nútíma (sl. 11.500 ár).
Fjögur ílöng eldstöðva- og sprungukerfi skera skagann, frá SV til NA, með opnum sprungum, siggengjum, háhitasvæðum og gossprungum, með gígum úr gjalli og hraunkleprum. Margar, misstórar hraundyngjur hafa myndast í kerfunum, sumar úr frumstæðri kviku úr möttli jarðar (pikrítí). Eldsumbrot eru þekkt í þremur vestustu eldstöðvakerfunum, í löngum hrinum, á 10/11. öld, 1151-1180 og 1210-1240.

Fólkið

Talið er að níu landnámsmenn hafi numið Reykjanesskaga ásamt fjölskyldum. Byggð á Suðurnesjum hefur einkennst af nálægð við sjó og fengsæl fiskimið. Víða má sjá slóðir og vörður í hrauninu sem marka aldagamlar þjóðleiðir sem þjónuðu fólki á ferð til verstöðva. Mikil verslun var við útlendinga í nokkrum höfnum á 15.-19. öld. Tvær jarðvarmavirkjanir eru reknar á á skaganum.
Bandaríska NATO-herstöðin og flugvöllurinn við Keflavík breyttu miklu um þróun atvinnulífs á seinni hluta 20. aldar. Bláa Lónið er einn eftirsóknarverðasti ferðamannastaður Íslands.

Geopark fyrirtæki

Vörumerkið Reykjanes UNESCO Global Geopark skiptir máli fyrir ferðaþjónustuna innan sveitarfélagamarka Grindavíkurbæjar, Reykjanesbæjar, Sandgerðisbæjar, Sveitarfélagsins Garðs og Sveitarfélagsins Voga. Í sameiningu geta fyrirtæki á svæðinu gert vörumerkið enn verðmætara um leið og styrkt ímynd sína.

*mynd*: RGP Veggskjöldur

Merki Reykjanes UNESCO Global Geopark

Fyrirtæki innan marka geoparka um allan heim hafa tækifæri til þess að nota merki þeirra til þess að kynna sig. Fyrirtæki sem skrifa undir samning við Reykjanes UNESCO Global Geopark fá heimild til þess að nota sérhannað merki Reykjanes Geopark enda felast í undirskriftinni áherslur til næstu ára.

Samningurinn byggir á leiðbeiningum fyrir notkun merkis EGN (European Geoparks Network) auk þess sem reglurnar hafa verið sniðnar að aðstæðum á Reykjanesi. Þar er kveðið á um þau skilyrði sem fyrirtæki þurfa að uppfylla til þess að nota vörumerkið.

Ávinningur í notkun merkis

Ávinningur fyrirtækja af samstarfi við Reykjanes Geopark er nokkur. Þannig hafa fyrirtæki möguleika á að nota samstarfsmerkið (Proud Partner of Reykjanes UNESCO Global Geopark) auk þess að hafa aðgang að kynningar- og fræðsluefni Reykjanes Geopark. Mikilvægast er þó að virk þátttaka fyrirtækja stuðlar að því að viðhalda UNESCO tengingu við svæðið á komandi árum. Reykjanes Geopark mun kynna samstarfsfyrirtækið á sama hátt og fyrirtækið mun kynna Reykjanes Geopark.

Um leið og fyrirtæki á svæðinu sameinast um að nota merki Reykjanes UNESCO Global Geopark sem upprunamerkingu, styrkjum við ferðaþjónustu og framleiðslu á Reykjanesskaga.

Kostnaður

Samstarf við Reykjanes Geopark um notkun vörumerkisins er fyrirtækjum að kostnaðarlausu.

Nánir upplýsingar er hægt að nálgast gegnum netfangið info@reykjanesgeopark.is eða í síma 420 3288.