Aðgát vegna sprungna við Brú milli heimsálfa og Valahnúk:
Reykjanes UNESCO Global Geopark vekur athygli á sprungum sem hafa myndast eða opnast nærri ferðamannastöðunum Brú milli heimsálfa og Valahnúk. Þessar sprungur geta verið varasamar og mikilvægt er að ferðamenn sýni aðgát á svæðinu. Gestir er beðnir um að fara varlega og halda sig frá jaðri sprungna hvar sem komið er á öllu Reykjanesinu. Ferðamenn eru á eigin ábyrgð á svæðinu.
Táknræn göngubrú liggur yfir togsprungu sem rekja má til gliðnunar jarðskorpu vegna plötu-(fleka-)reks um Mið-Atlantshafshrygginn. Meðalrekhraðinn er um 2 cm/ár en hreyfingarnar verða í hrinum með mislöngu bili.
Samkvæmt jarðfræðikenningum þá þrýstast Evrasíu- og Norður- Ameríkuflekarnir hvor frá öðrum á Reykjanesi. Plötuskilin afmarkast af gosreinum, gjám og gígaröðum sem liggja frá Reykjanesi og norðaustur um land. Segja má að Reykjaneshryggurinn (Mið-Atlantshafshryggurinn) “gangi” á land á Reykjanesi en með honum liggja skil þessara tveggja fleka. Ísland skiptist þannig milli tveggja jarðskorpufleka. Austurhluti landsins tilheyrir svonefndum Evrasíufleka og vesturhlutinn svonefndum Norður-Ameríkufleka. Skilin milli flekanna birtast okkur ýmist sem opnar sprungur og gjár eða sem sem gígaraðir.
Byggð hefur verið brú á milli “plötuskilanna” upp af Sandvík á Reykjanesi þar gefst kostur á að upplifa það að ganga á milli heimsálfa (jarðfræðilega séð) Fólki að kostnaðarlausu.
Hægt er að fá viðurkenningarskjal þess efnis að viðkomandi “hafi gengið á milli heimsálfa” gegn vægu gjaldi á upplýsingamiðstöð Reykjaness og gestastofu Reykjanes jarðvangs sem staðsett eru í Duushúsum í Reykjanesbæ.